Tjarnarskóli - lítill skóli með stórt hjarta

Tjarnarskóli

Tjarnarskóli var stofnaður árið 1985 af Margréti Theodórsdóttur og Maríu Solveigu Héðinsdóttur. Skólaárið 2016-2017 er 32. starfsár skólans.

Þróun og áherslur

Sjálfstæðir skólar

Umsóknir 2016-2017

Hafðu samband í tölvupósti; tjarnarskoli@tjarnarskoli.is

eða síma 5624020.

Bæklingur á pdf formi með upplýsingum um skólastarfið.

 

Fréttir


Skemmtileg skólaslit

Skólaslitin 2016 voru afar ánægjuleg. Nemendur, foreldrar og kennarar ásamt fjölskyldum nemenda fögnuðu skólalokum. Þrír nemendur fluttu tónlistaratriði, þau Ivana, Anna og Kristján, Rosalie Rut flutti glæsilega ræðu fyrir hönd útskriftarnemenda, Anna Sif flutti kveðjuræðu fyrir hönd foreldra og margir fengu viðurkenningar og hrós. Tíundu bekkingar voru auðviðtað útskrifaðir og fengu auk þess sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa skapað mjög góðan bekkjaranda og liðsheild sem smitaði út frá sér til annarra í skólanum. Við erum afar stolt af skólastarfinu sem var mjög viðburðaríkt í vetur. Við óskum útskriftarnemendum innilega til hamingju og óskum þeim gæfu og gengis og hlökkum til endurfunda í haust með hinum. 

Metþátttaka á mjög góðum fundi nemenda, foreldra og kennara

Skólaráðið hélt svo nefndan opinn fund á dögunum. Nemendur í 10. bekk köstuðu boltanum yfir til 9. bekkinga og sögðu frá hvernig þeim tókst að skapa góðan bekkjaranda, skipuleggja árshátíð, gera kennaragrínið og standa að fjáröflun. Foreldrar í 10. bekk miðluðu einnig af sinni reynslu til foreldra 9. bekkinga, en þeir hafa verið ötulir við að styðja við nemendur í bekknum og skólastarfið. Nemendur og foreldrar í 8. bekk fengu það viðfangsefni að koma með hugmyndir að hvernig við getum tengst grenndarsamfélaginu enn frekar. Margar frábærar hugmyndir komu fram sem verða nýttar í skólastarfinu næsta vetur. Ekki má gleyma að 9. bekkingar sáu um hlaðborð en það verkefni var fyrsta skrefið hjá þeim í að safna fyrir útskriftarferð vorið 2017. Við vorum hæst ánægð með hvernig til tókst!

Jens í 10. bekk fékk nemendaverðlaun skóla- og frístundráðs Reykjavíkur

Það var mjög ánægjuleg stund í dag þegar nemendur í 32 skólum í Reykjavík tóku á móti nemendaverðlaunum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Að þessu sinni tilnefndu kennarar Jens Arinbjörn Jónsson til þessara verðlauna. Í rökstuðningi segir meðal annars:

Jens er skemmtilega leitandi og hefur sýnt miklar framfarir í námi og skólastarfi. Jens er sérlega áhugasamur og jákvæður nemandi. Hann er forvitinn og leitandi og innri áhugi birtist mjög gjarnan í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann er afar vel máli farinn, bæði á íslensku og ensku og kafar gjarnan djúpt í viðfangsefnin. Hann hefur sýnt athyglisverðar framfarir árin sín í Tjarnarskóla, hefur verið virkur þátttakandi og er með góða rökhugsun. Hann hefur einnig gert eftirtektarverð og frumleg rannsóknarverkefni.

Það var glöð fjölskylda sem mætti með Jens við þetta tækifæri.

Við óskum Jens innilega til hamingju með þessa viðurkenningu.

Vikan með dönskum gestum var mjög skemmtileg

Síðasta vika var einstaklega skemmtileg hjá okkur þar sem tuttugu og þrír nemendur, þrír kennarar og tveir pabbar heimsóttu okkur í Tjarnarskóla og tóku þátt í fjölbreyttri dagskrá þessa viku. Gestirnir komu frá Roskilde Lille Skole. Þeir brugðu sér í Bláa lónið við komuna til Íslands. Tjarnarskólanemendur og fjölskyldur þeirra voru síðan gestgjafar nemendanna en þeir fullorðnu gistu í skólanum. Gestirnir, Tjarnókrakkar og kennarar fóru í sólarhringsferð í Bláfjöll á skíði, heimsóttu Hellisheiðarvirkjun og fóru í skoðunarferð í Hveragerði. Þar var Hveragarðurinn, jarðskjálftahermir, sundlaugin og Kjörís skoðuð. Safnaheimsóknir voru skipulagðar, leikir, Gróttuferð, ratleikur í miðborginni, pylsur voru grillaðar í Hljómskálagarðinum og margt fleira. Tjarnarskólagestgjafarnir voru afar duglegir að sinna gestunum sínum. Heimsókn af þessu tagi er einstaklega gefandi og skemmtileg þar sem nemendur gefst tækifæri á nýjum kynnum og æfa sig í samskiptum, verða reynslunni ríkari og gefa um leið af sér á báða bóga. Gestirnir og við vorum í skýjunum eftir vikuna. Nú erum við mjög spennt að vita hvort okkur tekst að endurgjalda heimsóknina á næsta skólaári, hver veit? Dönsku dagarnir tókust einstaklega vel.

Árshátíðin 2016, sú flottasta til þessa!

Nemendur og kennarar hittust prúðbúnir á árshátíðina 2016 í Iðnó fyrir skemmstu. Árshátíðin tókst einstaklega vel en að þessu sinni var Hollywoodþema. Góður matur, fallega lagt á borð, frábær skemmtiatriði og tilnefningar af ýmsu tagi flæddu fram eftir kvöldi. Kennaragrínið vakti mikla kátínu enda hafði mikið verið lagt í að gera það sem best úr garði. Kennararnir sýndu líka sitt kennaramyndband, mikið hlegið. Þær Anna Dögg og Rosalie Rut voru framkvæmdastjórar þessarar frábæru hátíðar en flestir í 10. bekk lögðu ótrúlega mikið á sig við að gera kvöldið ógleymanlegt.Margra vikna undirbúningur lá að baki, allt mjög vel skipulagt og smáatriðin klikkuðu ekki : ). Myndirnar segja sitt en um 100 myndir eru á myndakrækjunni, kíkið endilega á. Margrét Hulda tók flestar myndirnar, bestu þakkir MH. Takk krakkar fyrir ógleymanlegt kvöld!!!!! Þið voruð stórkostleg!

Skoða allar fréttir

Efst á síðu