Tjarnarskóli - lítill skóli með stórt hjarta

Fréttir


  • Falleg skólaslit í Dómkirkjunni 6. júní

    Skólaslitin fóru fram i Dómkirkjunni þann 6. júní síðast liðinn. Fjögur tónlistaratriði voru á dagskrá: Karen Eik í 10. bekk lék á víólu við undirleik Söruh Buckley, Sjana 10. bekkingur og Alex bróðir hennar, sem er fyrrum Tjarnskælingur, fluttu lag eftir Alex og texta eftir Sjönu, Alex lék á gítar en Sjana söng. Samar og Pétur léku einleik á fiðlu. Þetta var fallegur tónlistarflutningur sem setti afar fallegan svip á athöfnina. Auk ræðu Margrétar skólastjóra flutti Guðbrandur Óli kveðjuorð fyrir hönd útskriftarnemenda, Sigríður Johnsen, amma Ísaks, útskriftarnemenda,  færði skólanum þakkir og flutti kveðjuorð til útskriftarnemenda. Elín, mamma Sjönu og Alexar þakkaði fallega fyrir árin sem unglingarnir hennar hafa verið í Tjarnarskóla. Síðan fór fram verðlaunaafhending og síðan útskrift 10. bekkinga.

    Skólaslit eru ávallt mjög ánægjulegur viðburður. Eftir skólaslitin héldu tíundu bekkingar og fjölskyldur þeirra út í skóla þar sem var skemmtileg kveðjustund. Þær Andrea, Karen Eik, Móeiður, Samar, Sjana og Sonja höfðu skreytt stofur og ganga, nemendur komu með góðgæti á hlaðborðið og Karen kennari hafði sett saman skemmtilega myndasýningu frá skólaárum nemenda.  Karen kennari fékk góðan grip; nýtt ræðupúlt, sem afi Helgu Rakelar og Vigdísar hafði smíðað. (Sjá fleiri myndir á myndasíðu)

    Þetta var sannkallaður gleðidagur.  Síðan héldu nemendur út í sumarið og lífið fyrir utan dyrnar.

  • Samar fékk nemendaverðlaun Skóla- og frístundasviðs

    Á hverju skólaári tilnefna grunnskólar einn nemanda úr sínum skóla til þess að taka við nemendaverðlaunum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Markmið verðlaunanna er að hvetja nemendur til að leggja sig enn betur fram við að skara fram úr í námi, í félagsstarfi eða skapandi starfi. Við tilnefndum Samar með þeim orðum: Samar er góð fyrirmynd í skólanum og er duglegur námsmaður. Hún sýnir virkan áhuga og hefur jákvæð áhrif á aðra. Hún er skapandi og leggur sig fram í að ná árangri í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún hefur sýnt styrk í hópvinnu, sýnt frumkvæði og forystuhæfileika.

    Allir nemendur sem fengu tilnefningu fengu viðurkenningarskjal og bókargjöf. Við óskum Samar og fjölskyldu hennar innilega til hamingju. Hún er vel að þessari viðurkenningu komin.

  • Grillað og snú-snúað

    Það er hefð fyrir því að grilla pylsur og vera saman utan dyra þegar nálgast skólalok. Við gæddum okkur á ,,þjóðarrétti" Íslendinga á mánudaginn. Nú fækkar skóladögunum og prófin tekin við.

  • Tíundi bekkur á Caruso

    Tíundu bekkingar gerðu sér glaðan dag á fimmtudaginn og fóru með Karen, umsjónarkennara, á Caruso.  Þetta varð mjög skemmtileg samvera þar sem allir nutu þess að vera saman. Nú fer að styttast í skólaslit og kveðjustund og því mikilvægt að eiga sem flestar góðar minningar áður en haldir verður út í sumarið og framtíðina. 

  • Leonora og uglan

    Hún Leonóra okkar var að ljúka við fallega uglu í textílmenntinni. Hún ætlar að gleðja litla frænku sína sem er veik með því að gefa henni ugluna sem er falleg og krúttleg. 

  • Hermann, Selma og Andri með fyrirlestur

    Þau Hermann, Selma og Andri héldu góðan fyrirlestur 19. maí síðast liðinn. Þau eru í hópnum Erindi sem hefur vakið athygli fyrir umfjöllun um spennandi heim netsins; neikvæða og jákvæða notkun netmiðla meðal barna og unglinga. Þau kynntu fyrir okkur ýmsar vefsíður og forrit sem unglingar sækja og nota mest í dag en átta sig ekki alltaf á þeim hættum sem leynast þar. Í kjölfarið voru umræður í litlum hópum sem skiluðu umræðupunktum og tillögum sem verða hafðar til hliðsjónar við skipulagningu skólastarfsins næsta vetur. Við þökkum þremenningunum kærlega fyrir góða heimsókn.

  • Biophilia; kristallagerð, myndbönd og fleira skemmilegt

    Nemendur í Kvos tóku þátt í Biophilia-verkefninu fyrir skemmstu. Kristallagerð, myndbönd, tónlist og fleira skemmtilegt var á dagskrá nemenda meðan á verkefninu stóð. Fleiri myndir á myndakrækju.

  • Dansað í Iðnó á Barnamenningarhátíð

    Nemendur skólans brugðu sér í Lunch Beat í Iðnó á vegum barnamenningarhátíðar. Skemmtileg uppákoma.

  • Tjarnskælingar tóku þátt í Friðarhlaupinu 2014

    Á mánudaginn fór fram hið árlega friðarhlaup. Nemendur í Tjarnarskóla og Vesturbæjarskóla tóku þátt í stuttri athöfn við friðartréð sem stendur skammt frá Tjarnarbakkanum. Erlendir gestir voru með í hópnum sem hjóp með kyndil, tákn friðar, í kringum Tjörnina. Nemendur undirbjuggu sig með því að teikna friðartákn og hugleiða mikilvægi friðar á jörðu. Það eru fleiri myndir á myndakrækjunni. 

  • Góður fyrirlestur hjá Hlúms-íþróttahópnum í dag

    Í dag fengum við frjálsíþróttakonuna Fríðu Rún Þórðardóttur í heimsókn en Fríða Rún er næringarfræðingur, næringarráðgjafi og íþróttanæringarfræðingur. Hún ræddi við nemendur um mikilvægi hreyfingar og réttrar næringar. Áhugaverður fyrirlestur í alla staði. Fríða er afrekskona, var valin frjálsíþróttakona ársins, 35 ára og eldri árið 2013 og hefur mörgu að miðla.  Við þökkum henni kærlega fyrir komuna. 

  • Viðurkenning fyrir þemadagana

    Föstudaginn fyrir páska fékk stigahæsti hópurinn á þemadögum viðurkenningu. Það var vel við hæfi að fá páskaegg að launum, svona rétt fyrir páska. 

  • Viðurkenningar fyrir glæsileg rannsóknarverkefni

    Föstudaginn fyrir páska voru veitt verðlaun fyrir glæsileg rannsóknarverkefni sem nemendur skiluðu í síðasta mánuði. Á myndina vantar Kristínu Diljá og Pétur sem voru ekki í skólanum þennan dag. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn.

  • Stigahæsta liðið í Tjarnarhreystinni

    Þessir kátu krakkar náðu flestum stigum í Tjarnarhreystinni. Það má sjá fleiri myndir á myndakrækjunni.

  • Tjarnarhreystin fyrir páska

    Hefðbundin Tjarnarhreysti átti sér stað föstudaginn fyrir páska. Nemendur tóku þátt í dagskrá í Kramhúsinu og íþróttahúsinu. Nemendum var skipt í lið sem kepptu innbyrðis í góðri stemningu. Í lokin fékk stigahæsta liðið smá viðurkenningu en allir voru leystir út með málsháttarpáskaeggi. Við sama tækifæri voru veitt verðlaun fyrir þemadagana og flott rannsóknarverkefni. Það eru skemmtilegar myndir á myndakrækjunni, kíkið endilega á þær.

  • Frábær árshátíð 2014

    Árshátíð Tjarnarskóla 2014 tókst með miklum ágætum. Nemendur mættu prúðbúnir í Iðnó. Salurinn var fallega skreyttur og þriggja rétta máltíðin bragðaðist vel. Mörg skemmtiatriði voru á dagskrá; Hákon Darri spilaði á harmonikku, Móeiður, Sjana, Gunnar og Vigdís sungu og Samar spilaði á fiðlu. Kennaragrínið var mjög skemmtilegt, bæði nemendamyndbandið og kennaranna. Margir happrættisvinningar voru dregnir og svo var hápunkturinn þegar tilkynnt var hvaða nemendur höfðu verið tilnefndir fyrir ýmsa eiginleika.  Nefna má ,,bjartasta vonin, hlátur, hár og ,,fashionkilla". Herra og ungfrú Kvos, Lækur og Smiðja tóku sig vel út. Stemmningin var ótrúlega góð og það má svo sannarlega segja að árshátíðin hafi verið öllum til mikils sóma og árshátíðarnefndin stóð sig vel. Dagskránni lauk síðan með stuði og stemmningu á dansgólfinu. Það má sjá fullt af myndum á myndasíðunni.

  • Árshátíðardagur

    Það hefur verið mikil stemning í skólanum í dag, 3. apríl. Undirbúningur árshátíðarinnar er á lokasprettinum. Allir bekkir voru með einhverja tilbreytingu í tilefni dagsins; 10. bekkingar settu upp glæsilegt hlaðborð, 9. bekkingar fengu Þóri, umsjónarkennara í lið með sér. Hann mætti með forláta pönnukökupönnu - og allir fengu að gæða sér á ilmandi pönnukökum (með Nutella!). Kvosarkrakka ákváðu að hafa kósýstund og horfa á mynd og gæða sér á góðgæti sem þeir höfðu með að heiman. 

  • Gaman á skíðum

    Það er ótrúlega gaman að leggja frá sér hefðbundin skólaverkefni og skella sér á skíði. Tjarnarskólanemendur brugðu sér í skemmtilega skíðaferð í síðustu viku, frá fimmtudegi til föstudags. Allir nutu þess að renna sér og vera saman. Kvöldvakan tókst mjög vel og allir komu glaðir til baka. Það er skemmtilegt á skíðum! Það eru fleiri myndir í ,,Myndir".

  • Ánæjulegur öskudagur

    Sú hefð hefur skapast að við höfum öskudaginn með öskudagssniði. Nemendur og kennarar mæta gjarnan í búningum, við breytum viðfangsefnum, nemendur fá að skreppa í leiðangur um miðborgina og fleira er sér til gamans gert. Þær Alda og Birta í 10. bekk steiktu stóra stafla af vöflum og allir gæddu sér á kræsingunum í hádeginu. Um að gera að halda í skemmtilegar hefðir. Það eru fleiri myndir á myndasíðunni okkar.

  • Leiklistarnemar í FG með kynningu

    Fyrrverandi Tjarnskælingur, hún Unnur okkar Agnes, er nemandi á leiklistarbraut í FG. Hún kom í heimsókn á öskudaginn ásamt félögum sínum að kynna Beetlejuice sem leiklistarnemar hafa verið að æfa. Tjarnskælingum bauðst að kaupa miða á sýningu hjá þeim og voru mjög spenntir.

  • Lækjarnemendur fóru á Listasafn Reykjavíkur

    Vera, myndlistarkennari, er dugleg að fara með nemendur á myndlistarsýningar. Síðast fóru Lækjarnemendur að skoða sýningu í Listasafni Reykjavíkur. Sýningin nefnist Hljómfall litar og línu og leiðir gesti inn í heim litar og tónlistar og samspils þar á milli.


Efst á síðu