Tjarnarskóli - lítill skóli með stórt hjarta

Frétt

Falleg skólaslit í Dómkirkjunni 6. júní

Skólaslitin fóru fram i Dómkirkjunni þann 6. júní síðast liðinn. Fjögur tónlistaratriði voru á dagskrá: Karen Eik í 10. bekk lék á víólu við undirleik Söruh Buckley, Sjana 10. bekkingur og Alex bróðir hennar, sem er fyrrum Tjarnskælingur, fluttu lag eftir Alex og texta eftir Sjönu, Alex lék á gítar en Sjana söng. Samar og Pétur léku einleik á fiðlu. Þetta var fallegur tónlistarflutningur sem setti afar fallegan svip á athöfnina. Auk ræðu Margrétar skólastjóra flutti Guðbrandur Óli kveðjuorð fyrir hönd útskriftarnemenda, Sigríður Johnsen, amma Ísaks, útskriftarnemenda,  færði skólanum þakkir og flutti kveðjuorð til útskriftarnemenda. Elín, mamma Sjönu og Alexar þakkaði fallega fyrir árin sem unglingarnir hennar hafa verið í Tjarnarskóla. Síðan fór fram verðlaunaafhending og síðan útskrift 10. bekkinga.

Skólaslit eru ávallt mjög ánægjulegur viðburður. Eftir skólaslitin héldu tíundu bekkingar og fjölskyldur þeirra út í skóla þar sem var skemmtileg kveðjustund. Þær Andrea, Karen Eik, Móeiður, Samar, Sjana og Sonja höfðu skreytt stofur og ganga, nemendur komu með góðgæti á hlaðborðið og Karen kennari hafði sett saman skemmtilega myndasýningu frá skólaárum nemenda.  Karen kennari fékk góðan grip; nýtt ræðupúlt, sem afi Helgu Rakelar og Vigdísar hafði smíðað. (Sjá fleiri myndir á myndasíðu)

Þetta var sannkallaður gleðidagur.  Síðan héldu nemendur út í sumarið og lífið fyrir utan dyrnar.


Efst á síðu